Iðnver ehf. hefur gert samning við þýska fyrirtækið Huber Technology um að gerast umboðsaðili fyrir þýska fyrirtækið á Íslandi. Huber sérhæfir sig í nýsköpun og tækninýjungum fyrir skólp og iðnaðarskólp en þetta er í fyrsta skipti sem vörur fyrirtækisins verða til sölu á Íslandi.
„Ég er mjög ánægður með að við höfum náð þessum stóra samningi við Huber sem hefur verið tvö ár í vinnslu. Huber er gamalgróið og þekkt fyrirtæki í þessum geira. Þetta er mikið traust sem okkur er sýnt frá svo stóru og virtu fyrirtæki. Huber hefur aldrei verið með vörur sínar til sölu á Íslandi áður og því eru þetta ákveðin tímamót og raunar stórar fréttir fyrir íslenska markaðinn í mínum huga,“ segir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri og eigandi Iðnver. Kemur þetta fram í tilkynningu.
„Við finnum strax fyrir miklum áhuga og eftirspurn frá íslenskum fyrirtækjum á vörum frá Huber. Það kemur raunar ekki á óvart enda er þetta byltingarkenndur tæknibúnaður og vörur sem fyrirtækið er að bjóða upp á í tengslum við skólp og allt sem því viðkemur.“
Mikil verðmæti sparast í hringrásarkerfinu
Pétur segir það stórt skref að geta nú boðið upp á vörur Huber fyrir iðnfyrirtæki og einnig sveitafélög frá þessu þekkta þýska fyrirtæki. „Þetta eru stórar fréttir fyrir iðnaðinn í heild sinni því tæknibúnaðurinn frá Huber getur t.d tekið prótein úr iðnaðarvatni, frárennsli frá t.d fiskiðnaði og komið því í bræðslu. Það sparast tugir rúmmetra á dag sem hægt er að endurnýta sem annars hefðu farið til spillis. Það eru því mikil verðmæti sem sparast í þessu hringrásarkerfi. Þetta er gríðarlega mikilvæg tækni og búnaður fyrir allan mengandi iðnað. Framundan er mikil endurskoðun á mengandi iðnaði og úrgangi frá honum. Við Íslendingar erum aftarlega á merinni hvað þetta varðar miðað við flest Evrópulönd og það er ljóst að það verða miklar breytingar á næstu árum hér á landi.“